Jafnskjótt og þú finnur í hjarta þér þá einstöku tilfinningu sem nefnist kærleikur, finnur dýptina, yndið og unaðinn, uppgötvarðu að fyrir þér er heimurinn orðinn allur annar.
21.02.2012
Margt hefur verið skrifað og skrafað um Tarot spilin, bæði jákvætt og neikvætt. Margir eru á mót þeim og enn aðrir þeim hlyntir.
Engum blöðum er um það að fletta að þau geyma mjög mikla dýpt andlegrar þekkingar og tákna úr aust-vestrænni menningu og dulspekisögu.
Tarot spil skiptast í raun upp í tvenna spilastokka. Fyrri stokkurinn, sem telur 22 spil, nefnist Major Arcana. Sá síðari, sem telur 56 spil, nefnist Minor Arcana.
Mörgum sem byrja að nota Tarot finnst e.t.v. einkennilegt að skipta spilunum upp á þennan máta og blanda þeim fljótlega saman í einn. Þá er algengt að fólk leyfi spilunum að snúa á haus í stokknum eftir því hvernig þau stokkast upp eða sé blandað saman.
Margar bækur um Tarot spil mæla jafnvel með þessu og kenna mismunandi merkingar spilanna eftir því hvort þau snúa á haus eða upprétt. Þannig séð finnst mörgum erfitt að átta sig á því hvort læra þurfi 78 merkingar eða 156 merkingar spilanna.
Smám saman lærist fólki að þekkja úr að Major Arcana spilin - aðalstokkurinn - hafa dýpri merkingar en Minor Arcana.
Misjafnt er hvort notendum finnist rétt aða rangt að blanda þeim öllum saman í einn stokk við notkun. Einnig er misjafnt hvort notendur mæli með notkun þeirra á haus eða ekki.
Sá sem þetta ritar fylgir þeirri stefnu að nota spilin ætíð aðskilin og aldrei á haus: Þannig megi leggja Major Arcana á vissa staði í spálögnum og að allar 78 merkingar spilanna myndi heild sem sleppi engu úr. Þannig megi ráða af mynstri eða lögn spilanna hvort merking sé jákvæð eða neikvæð.
Mjög algengt er að fólk byrji á að nota lögn sem á Íslensku nefnist Kelstneski krossinn (The Celtic Cross). Þessi lögn er mjög skýr og þægileg, þar sem vinstra megin birtast sex spil sem einblýna á þann sem lesið er fyrir en hægra megin afbrigði af lífi viðkomandi.
Margar aðrar lagnir eru til fyrir spálagnir og mjög persónubundið hvað hentar hverjum. Allir reyndir Tarot notendur enda á að velja sína eigin lögn sem hentar hverjum og einum. Keltnseki krossinn er mjög góður en til að mynda datt sá sem þetta ritar niður á forna lögn mjög snemma á sínum ferli sem hann grípur langmest til. Hvort sú lögn sé betri eða verri en aðrar skiptir í raun engu heldur það hvort hver og ein lögn henti þeim sem notar hana.
Táknmyndir Marjor Arcana spilanna eru allar djúpt hugsaðar og er hvert einasta tákn þar með merkingu sem skilar sér í heildarmynd hvers spils.
Spilið sjálft hefur sína eigin heildarmerkingu en innri táknmyndir þess eiga sína eigin sögu. Þannig má leggja fleiri spil hlið við hlið og reyndur Tarot notandi getur séð úr heildarmynstri þeirra hvernig innri táknin tengjast á milli spila.
Þannig geta tvö spil sem almennt séð hafi neikvæða merkingu snúist yfir í jákvæða merkingu í samtvinnun og öfugt.
Minor Arcana spilin hafa færri innri tákn og þannig séð má segja að spil úr Minor Arcana eigi grynnri merkingu en spil úr Major Arcana. Þetta er ein aðal ástæðan fyrir að margir notendur vilja nota stokkana aðskilda. Því hvert Major Arcana spil segir mun stærri sögu en í Minor, þó Minor hafi fleiri spil.
Þá er hvert spil tengt bæði Talnaspeki og Stjörnuspeki. Mjög algengt er að stjörnuspekingar sem einnig noti dulrænu tengi þetta saman. Þá er algengt að fólk sem kann að nýta sér talnaspeki geti nýtt hana eingöngu til að lesa úr merkingu Minor Arcana. Þá kemur sér vel að þekkja hvernig Minor Arcana skiptist í fjóra hópa líkt og klassísku spilin sem við þekkjum.
Klassísk spil eru aðeins 52 öfugt við Minor Arcana sem eru 56. Bæði þessi spil skiptast í fjóra hópa og glöggt ma sjá að bæði spilin hafa sömu rætur. Hjarta er Bikar, Tígull er Skildir, Lauf eru Stafir og Spaði er Sverð. Þá hafa báðar tegundir gosa, drottningu og konung, nema Minor Arcana bætir við riddara.
Séð í þessu ljósi mætti vel nota Minor Arcana til að spila félagsvist ef svo bæri við.
Eitt sem mörgum finnst sérstakt við Major Arcana er fíflið. Fyrsta spilið í stokknum er merkt sem 0, núll, og spil nr. 22 er merkt nr. 21. Þannig séð hefur spil 0, sem nefnt er fíflið, enga merkingu í talnaspeki og tvíræða merkingu í spilunum sjálfum.
Þetta finnst mörgum sérstakt og hefur mun dýpri og næmari rætur í dulspeki en nokkur Tarot bók hefur nokkru sinni náð að útskýra. Þarf að fara alla leið í japanskan Taóisma til að finna ábendingu um þessa merkingu, reyndum Tarot dulspekingum til skemmtunar.